Þannig byrjaði sokka ævintýrið
Þegar nýjar dyr opnast.
Flestir þekkja orðatiltækið ”Þegar einar dyr lokast, opnast aðrar”. Nákvæmlega þetta kom fyrir mig. Árið 2016 missti ég vinnuna sem bókari í Danmörku, eftir 20 ára starf. Allt í einu sat ég með uppsagnarbréf í hendini og vissi ekki hvað tæki við. Í sama augnabliki og ég sat með uppsögnina hafði gamall vinur minn samband við mig sem ég hafði ekki heyrt frá í 35 ár. Hann hafði fundið mig á facebook og skrifaði til mín og spurði hvernig ég hefði það. Það vill svo til að þessi vinur á sokkaverksmiðju, og eftir langt samtal seinna um kvöldið þegar ég var komin heim, spyr hann mig hvað nú taki við hjá mér. Spurningin kom aftan að mér, og ég segi við hann í gríni að kanski færi ég bara að selja sokka. En það sýndi sig að vera ekki svo galin hugmynd þrátt fyrir allt.
Ég notaði uppsagnarfrestinn til að koma nýja fyrirtækinu á fót. Þetta var erfið vinna og margt nýtt að setja sig inn í, meðal annars að gera heimasíðu, finna nafn á vörumerkið og hanna vörumerkið Socks2Go, sem dóttir mín gerði fyrir mig. Ég fór nokkrar ferðir að heimsækja verksmiðjuna, skoða vörurnar og hafa gæðaeftirlit með framleiðslunni. Tíu mánuðum seinna fékk ég svo 20 feta gám fullann af sokkum til Íslands þar sem ég hafði komið mér fyrir. Svo að nú gat ég opnað heimasíðuna og byrjað að selja.
En það var enginn sem að vissi um heimasíðuna þó ég hefði verið búin að keyra nokkrar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Ég hafði ekki marga miðla til að fara í stórar auglýsinga herferðir, þannig að ég ákvað að leggja land undir fót og kynna vöruna fyrir landsmönnum. Svo að ég fyllti bílinn af sokkum og keyrði af stað í von um að orðspor af gæðum sokkana myndu berast manna á milli. Ég gekk í hús, heimsótti fyrirtæki og fór svo í eina og eina verslun sem allar tóku vel á móti mér og vildu selja sokkana, oftar en ekki seldi ég sokka frá skottinu á bílnum og einu sinni þegar ég var að setja bensín á bílinn, hópuðust verkamenn í kringum bílinn og keyptu sokka.
Í dag fást sokkarnir í um 50 verslunum vítt og breitt um landið, gæðin og vellíðan í sokkunum er það sem fólk sækist eftir. Sokkarnir eru búnir að vera til sölu í einni verslun í USA í eitt ár og aðili í útivista geiranum er að bjóða þá undir sínu eigin vörumerki. Einnig hafa erlendir ferðamenn sem hafa keypt sokka hérlendis haft samband og ég þurft að senda sokka til þeirra.
Svona getur lífið tekið nýja stefnu þegar maður minnst væntir þess. Daginn sem ég stóð með uppsagnarbréfið í hendinni og hélt að það biði mín langt ferli í atvinnuleit, tók lífið óvænta stefnu og nýjar dyr opnuðust að ótrúlegu ævintýri að sjálfstæðum atvinnurekstri sem er rétt að byrja. Eitt er þó víst, að ég nýt þessa ævintýris og viðfangsefni þess.